Mikill spenningur var fyrir opnun Dýrafjarðarganga þann 25. október. Löng bílaröð myndaðist beggja vegna ganganna meðan fólk beið þess að mega aka í gegn í fyrsta sinn en opnunarathöfnin var með óvenjulegu sniði. Vegagerðin hefur látið útbúa stutt myndband þar sem farið er yfir framkvæmdina frá upphafi til enda.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra opnaði Dýrafjarðargöngin ásamt Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra Vegagerðarinnar. Venja er að blása til mikilla hátíðarhalda í kringum slíkar opnanir enda hafa samgöngumannvirki á borð við jarðgöng mikla þýðingu fyrir samfélög. Vegna Covid-19 faraldursins var formleg opnun þó með mjög óvenjulegu sniði.
Þar sem ekki var hægt að fara vestur vegna samkomutakmarkana var ákveðið að ráðherrann myndi opna göngin með því að hringja í vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði og biðja um að slám við gangamunnana yrði lyft og opna þar með fyrir umferð.
Tæknin var nýtt til hins ýtrasta. Ávörpum ráðherra og forstjóra var útvarpað á sérstakri FM tíðni í bíla þeirra sem biðu við göngin. Þá var athöfninni í Reykjavík streymt á netinu auk þess sem streymt var myndum að vestan sem tengdust streyminu frá Reykjavík.
Hátt í fjögur þúsund manns fylgdust með hinu beina streymi og rúmlega 800 bílar fóru í gegnum göngin fyrsta daginn.
Börnin fyrst í gegn
Börn úr Grunnskólanum á Þingeyri fóru fyrst í gegnum Dýrafjarðargöng en með þeim í för var Gunnar Gísli Sigurðsson sem mokað hefur Hrafnseyrarheiði í nærri hálfa öld. Síðustu ár hafa börn í skólanum tekið virkan þátt í að þrýsta á samgöngubætur. Fyrr í ár sendu nemendur skólans bréf til samgönguráðherra þar sem þau óskuðu eftir að fá fara fyrst í gegnum göngin. Ráðherra tók vel í þessa beiðni og sendi nemendunum svarbréf þar sem hann hrósaði þeim fyrir frumkvæðið og að taka ábyrgð á því að vera virkir þátttakendur í samfélaginu sínu.
Skemmtilegt myndband
Vegagerðin hefur látið útbúa stutt myndband þar sem farið er yfir framkvæmd Dýrafjarðarganga. Í myndbandinu er rætt við Gísla Eiríksson sem nýverið lét af störfum sem forstöðumaður jarðganga hjá Vegagerðinni.
Gísli segir Dýrafjarðargöng afar kærkomin fyrir Vestfirðinga enda hafi mörg vandamál leitt af því að hafa ekki almennilegan veg á milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða.
Með göngunum þarf ekki lengur að aka veginn yfir Hrafnseyrarheiði en heiðin var mikill farartálmi yfir vetrartímann. „Heiðin er 550 m há og efst uppi eru brattar hlíðar, mjög mikill snjór og bullandi snjóflóðahætta. Vegurinn fer eiginlega upp í gegnum hengjurnar í fjallsbrúninni og það er hætta á því þegar verið er að moka að þá skeri menn gat í hengjuna og setji af stað snjóflóð. Það hefur gerst oftar en einu sinni,“ segir Gísli en vonast þó til að Hrafnseyrarheiði verði áfram ferðamannavegur á sumrin enda sé vegurinn um margt merkilegur og þótti flottur þegar hann var byggður 1950. „Þetta eru merkilegar minjar um vegagerð á miðri 20. öld.“
Myndbandið hér að neðan er unnið af Hauki Sigurðssyni ljósmyndara.