Ein af stærri ferðahelgum sumarsins er fram undan og margir sem verða á ferð og flugi. Búast má við mikilli umferð á Hringvegi (1) frá því snemma á föstudag og fram á sunnudagskvöld. Vegagerðin biðlar til vegfarenda að fara varlega í umferðinni, aka ekki yfir hámarkshraða, sýna þolinmæði og gera ráð fyrir að það tekur lengri tíma að fara á milli staða en vanalega.
Í kringum Dalvík er viðbúið að umferð verði mikil þar sem Fiskidagurinn mikli verður haldinn með pompi og prakt. Til að umferðin gangi vel fyrir sig verður lögreglan í samvinnu við Vegagerðina með umferðarstýringu í Múla- og Strákagöngum frá klukkan 16:00-24:00 á föstudaginn, frá klukkan 12:00-24:00 á laugardaginn og frá miðnætti á sunnudaginn og fram eftir nóttu. Búast má við einhverjum töfum.
Líkur eru á mikilli umferð um Hvalfjarðargöngin alla helgina. Vegfarendur sem eiga leið um Hvalfjarðargöng sem og önnur jarðgöng um landið eru beðnir um að vera vel á verði og passa að halda góðu bili á milli ökutækja, eða 50 metrum eins og kemur fram á umferðarskiltum við göng.
Umferðaróhöpp í jarðgöngum geta valdið miklum umferðartöfum, en loka þarf göngum þegar óhöpp verða til að tryggja öryggi á vettvangi.
Nánari upplýsingar um umferðarstýringuna í Múla- og Strákagöngum eru á upplýsingavef Vegagerðarinnar, umferdin.is.
Á umferdin.is eru einnig rauntímaupplýsingar um færð og veður, tilkynningar um lokanir og opnanir á vegum og jarðgöngum. Þar eru einnig upplýsingar um framkvæmdir á vegum og áhrif þeirra á hraða eða takmarkanir á umferð. Einnig er hægt að hafa samband við 1777, þjónustusíma Vegagerðarinnar, sem er opinn frá klukkan 06.30-20:00 alla daga.