Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar hefur unnið að viðgerðum á brú yfir Svartá þessa vikuna en hún skemmdist þegar Svartá ruddi sig að kvöldi mánudagsins 13. febrúar. Skemmdir voru mun minni en í fyrstu var talið. Viðgerðum verður lokið í dag, föstudaginn 17. febrúar.
„Við fengum fréttir af því að brúin yfir Svartá, að bænum Barkarstöðum, hefði skemmst að morgni þriðjudagsins. Við fórum strax á staðinn til að skoða aðstæður og skipuleggja aðgerðir. Flokkurinn notaði daginn til að undirbúa sig og taka til allt það efni sem við gætum þurft til viðgerða og fluttum okkur svo á staðinn á miðvikudagsmorgun,“ segir Vilhjálmur Arnórsson, verkstjóri brúarvinnuflokks Vegagerðarinnar frá Hvammstanga.
Fyrstu fréttir hermdu að brúin væri ónýt og ekkert annað að gera en rífa hana. En skemmdirnar voru mun minni en í fyrstu var ætlað. „Þetta leit mjög illa út, brúin var svo bogin og ekki munaði miklu að hún færi fram af. En bitarnir hafa sloppið óskemmdir og því hægt að koma brúnni aftur á réttan stað,“ segir Vilhjálmur. Flokkurinn hefur í vikunni unnið að því að festa brúna aftur. Brúargólfið var rifið að hluta og fest á aftur, þá bognuðu stífur milli bita sem hefur verið skipt út. „Það var smá bras að koma brúnni aftur á réttan stað svo hægt væri að festa hana aftur í sætið, en þetta hófst allt saman. Nú erum við að bráðabirgðatengja vegrið á brúna svo hún ætti að vera orðin fær undir kvöldið, en eftir helgi förum við í lokafrágang,“ upplýsir Vilhjálmur.
Hann segir íbúa á bæjum hinumegin brúarinnar hafa verið nokkuð rólega yfir þessu havaríi. „Þau hafa fengið eitthvað sent af vörum, og svo fóru feðgar gangandi yfir brúna eitt kvöldið til að fara á árshátíð í skólanum,“ segir hann glettinn.