Vegfarendur hafa orðið varir við töluverðar skemmdir á vegum landsins, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Umhleypingar í veðri, vatn, frost og þíða, hafa mikil áhrif á holumyndun á vegum. Einnig hefur aukin umferð áhrif þar á og ekki síður skortur á fjármagni til viðhalds vega.
En hvernig myndast holur í vegum? Ein af ástæðum þess að holur myndast er þegar vatn liggur á vegum. Ekki þarf nema litla sprungu í malbiki til að vatn komist þar undir og safnist fyrir. Þegar vatn frýs eykst rúmmál þess og þegar það þiðnar aftur, er malbikið uppspennt. Ef þungur bíll ekur þar yfir og brýtur það niður getur hola myndast mjög hratt.
Þó nokkrar tilkynningar um tjón hafa borist Vegagerðinni undanfarna daga þar sem fólk hefur ekið ofan í djúpar holur, skemmt dekk eða orðið fyrir annars konar skemmdum. Vegagerðin vinnur eftir ákveðnu verkferli sem skilgreint er í gæðakerfi stofnunarinnar þegar tilkynnt er um skemmd á vegi. Markmiðið er að tryggja að holur séu lagaðar innan skilgreinds viðbragðstíma.
Hægt er að tilkynna um holur á vegum Vegagerðarinnar í þjónustusímann 1777 eða með því að senda ábendingu á vefnum, www.vegagerdin.is. Starfsfólk vöktunar og upplýsinga kemur tilkynningunum til starfsfólks þeirra þjónustustöðva sem sinna viðhaldi á þeim vegi sem holan er tilkynnt á.
Vegagerðin hefur forræði yfir stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu, aðrir vegir eru í eigum sveitarfélaga. Verkaskiptingin er þannig að starfsfólk Vegagerðarinnar sinnir viðgerðum á holum á sínum vegum en sveitarfélög á þeim vegum sem heyra undir þau.
Hafi vegfarendur orðið fyrir tjóni vegna skemmda á vegum Vegagerðarinnar, er hægt að senda inn tjónaskýrslu í gegnum „mínar síður“ á vegagerdin.is (efst á síðu) þar sem hægt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Lögfræðideild Vegagerðarinnar tekur þá afstöðu til bótaskyldu en ákveðnar reglur gilda um viðbragð og bótaskyldu sem útskýrðar eru hér:
Í 1. mgr. 43. gr. vegalaga nr. 80/2007 kemur fram að veghaldari beri ábygð á því að vegi, sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar, sé við haldið með eðlilegum hætti miðað við þá umferð sem um veginn fer. Skal hann svo fljótt sem við verður komið eftir að hann hefur fengið vitneskju um skemmdir á vegi, sem hættulegar eru umferð, láta gera við þær eða merkja hina hættulegu staði þar til viðgerð hefur farið fram, og skulu merkingar vera í samræmi við ákvæði umferðarlaga. Kröfur til veghaldara fara m.a. eftir því hve mikil umferð er um viðkomandi veg og eru þannig gerðar meiri kröfur ef um er að ræða veg með mikilli umferð, en að skapi minni kröfur gerðar ef umferð um veg er lítil. Staðsetning skemmdar og tímasetning tilkynningarinnar getur haft mikil áhrif á hvað kann að teljast sanngjarn og eðlilegur tími, sbr. orðalag 43. gr. um „svo fljótt sem við verður komið […]“ og getur það tekið nokkurn tíma að bregðast við öllum þeim tilkynningum um skemmdir sem berast með stuttu millibili. Þar sem starfsmenn sinna verkefnum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið, allt frá Reykjanesi og upp á Kjalarnes, getur það tekið tíma að sinna verkefnum og/eða bregðast við ábendingum, útvega efni og fara á næsta viðgerðarstað. Á höfuðborgarsvæðinu er almennt miðað við að gera við skemmdir innan fjögurra klukkustunda frá því að tilkynning berst. Starfsmenn Vegagerðarinnar reyna þó eftir fremsta megni að bregðast við eins fljótt og við verður komið.
Bótaskylda Vegagerðarinnar sem veghaldara fer eftir 56. gr. vegalaga en þar segir:
„Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.”
Hafi Vegagerðin brugðist nægilega fljótt við tilkynningum sem berast er að jafnaði ekki um bótaskyldu að ræða. Meta þarf hverju sinni hvort svo er en ljóst að starfsmenn Vegagerðarinnar geta ekki haft stöðugt eftirlit með öllu þjóðvegakerfi landsins. Eins og áður segir geta vegskemmdir myndast skyndilega og geta starfsmenn Vegagerðarinnar því miður ekki alfarið fyrirbyggt hættu á tjóni.