Nýrri tvíbreiðri brú yfir Stóru-Laxá, sem nú er í byggingu, var bjargað frá stórtjóni á dögunum. Það var gert með því að rjúfa veginn að ánni áður en stórt flóð varð í henni. Enn er flóðahætta og Skeiða- og Hrunamannavegur (30) því lokaður áfram um hríð. Brúargólf nýju brúarinnar var steypt á dögunum. Aðstæður voru all sérstakar enda hafði verið byggt yfir brúna sem hefur ekki verið gert áður hér á landi.
Brú sem verktakinn Ístak er með í byggingu yfir Stóru-Laxá var forðað frá stórtjóni þegar Skeiða- og Hrunamannavegur var rofinn þann 19. janúar síðastliðinn til að opna nýjan farveg fyrir ána og skapa svigrúm fyrir vatnavexti. Næsta dag, þann 20. janúar, gerði asahláku eftir um sex vikna samfelldan frostakafla. Mikill ís var kominn á ána og því viðbúið að áin ryddi sig með miklu vatnsflóði og jakaburði.
Við byggingu brúarinnar var árfarvegurinn þrengdur og verkpallar reistir yfir. Fyrirséð var að vatnsopið bæri ekki stóraukið vatnsrennsli með jakaburði og því ráðist í þessa framkvæmd að rjúfa veginn norðan við ána. Þann 21. janúar, tveimur dögum eftir að vegurinn var rofinn, ruddi áin sig fram með miklu flóði og streymdi að hluta um hinn nýja farveg. Með stórvirkum vinnuvélum tókst verktakanum að bægja frá ísjökum og halda rennslinu greiðu á meðan vatnselgurinn var mestur og forða nýja mannvirkinu frá skemmdum.
Steypuvinna við brúargólfið hófst að morgni þriðjudagsins 24. janúar og lauk seinnipart miðvikudagsins 25.janúar og hafði vinnan þá staðið yfir samfellt í 30 klukkustundir. Heildarsteypumagn var 1.200 rúmmetrar en brúin er tvíbreið og 145 metra löng.
Vegna kuldatíðar var byggð yfirbygging yfir brúna og tjaldað yfir og niður með hliðum að jörð. Snjór og klaki sem var í mótunum var bræddur með heitu vatni. Kynt var bæði undir brúargólfið og einnig tjaldið yfir brúargólfinu áður en steypt var. Þar inni var orðinn um 10° hiti þegar steypuvinna hófst.
Veður var stillt með steypt var og verkið gekk vel. Útlögn og aðhlúun steypunnar var auðveld undir yfirbyggingunni en ekki er vitað til að brú hafi áður verið yfirbyggð með þessum hætti hérlendis.
Þriðjudaginn 31. janúar hófst vinna við uppspennu brúardekksins. Áætlað er að sú vinna taki um tíu daga. Að því loknu verður hægt að fjarlægja undirslátt og opna fyrir rennsli undir alla brúna. Flóðahætta er ekki liðin hjá og því ekki talið skynsamlegt að fylla í skarðið í veginum. Því verður Skeiða- og Hrunamannavegur (30) við brúna yfir Stóru-Laxá ekki opnaður fyrir umferð á næstu dögum.
Ökumönnum er bent á merktar hjáleiðir um Skálholtsveg (31), Biskupstungnabraut (35) og Bræðratunguveg (359). Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.