Áætlað er að ljúka allri brúargerð í verkinu Hringvegur (1) um Hornafjörð fyrir áramót. Um er að ræða fjórar tvíbreiðar brýr sem samtals eru 468 metra langar. Brúarsmíðin er hluti af umfangsmeiri framkvæmd sem felur í sér lagningu 19 kílómetra langs þjóðvegar og 9 km af hliðarvegum, auk tveggja áningarstaða. Nýja veglínan mun stytta núverandi Hringveg um 12 kílómetra, en áætluð verklok eru í desember 2025.
„Framkvæmdirnar í þessu umfangsmikla verkefni hafa gengið vel. Unnið hefur verið að öllum verkþáttum samtímis, sem krefst verulegs mannafla. Í október í ár voru milli 50 til 60 manns frá Ístaki við störf,“ segir Axel Viðar Hilmarsson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni. Framkvæmdir hófust síðsumars 2022 og stefnt að því að ljúka þeim í lok næsta árs.
Mikilvægum áfanga verður þó náð á þessu ári þegar lokið verður við að steypa allar brýrnar í verkinu. „Djúpárbrúin er tilbúin og búið að veita ánni undir hana á ný. Um miðjan október var seinni hluti Hornafjarðarfljótsbrúar steyptur, 15. nóvember steypuvinnu við Hoffellsá lokið og um miðjan desember er ætlunin að klára brúna yfir Bergá.“
Unnið er að vegagerð samhliða öðrum verkþáttum. Austasti hluti vegarins er skemmst á veg kominn. „Við erum að fara í að fergja þennan austasta kafla en það hefur ekki verið hægt hingað til vegna hitaveitulagnar sem þurfti að færa. Þá er unnið að útfærslu á hringtorgi sem tengir Hringveginn við Hafnarveg og Nesjahverfi,“ segir Axel en bæjarstjórn Hornafjarðar óskaði eftir því við Vegagerðina eftir að framkvæmdir hófust að endurskoða fyrri áætlanir um tvenn T-vegamót. „Rökin voru að umferð myndi aukast verulega á þessum kafla á næstu árum vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu,“ lýsir Axel en breytingin felst í að útbúa hringtorg sem er annars vegar vegtenging Hafnar við Hringveginn og hins vegar tenging við Nesjahverfið og sveitina til norðurs.
Brúin er rétt tæpum tveimur kílómetrum sunnan við núverandi brú yfir Djúpá. Hún er 52 metra löng í tveimur höfum. Yfirbygging brúarinnar var steypt í lok ágúst og brúin spennt upp í byrjun september. Í október var unnið að því að rífa mótin undan brúnni og í nóvember var stefnan að veita ánni undir brúna.
Nýja brúin yfir Hornafjarðarfljót er sjö kílómetrum sunnan við núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót. Brúin er 250 m löng í sex höfum, 35 metra löng endahöf og 45 metra löng millihöf. Yfirbygging 1. áfanga var steypt um miðjan júlí í ár og uppspenna framkvæmd í lok mánaðar. Grautun í kapalrör fór fram í byrjun ágúst. Í kjölfarið voru mótauppslættir færðir yfir á 2. áfanga brúarinnar. Í október var unnið að því að klæða mótin, setja járnalögn og koma fyrir kapalrörum. Um miðjan mánuðinn var lokið við steypu á yfirbyggingu á 2. áfanga.
Brúin er 114 metra löng, steypt, eftirspennt bitabrú í þremur höfum, 35 metra endahöf og 44 metra millihaf. Akbrautir verða tvisvar 4,5 metrar og hálfs metra kantbitar sitt hvoru megin eða alls 10 metra breið brú. Í byrjun október var unnið að uppslætti yfirbyggingar og járnabindingu. Stefnt var á að klára brúargerðina 15. nóvember.
Brúin verður 52 metra löng, steypt, eftirspennt bitabrú í tveimur höfum, 26 metra löngum. Tvíbreið brú og tíu metra breið líkt og hinar brýrnar í verkinu. Í byrjun október var búið að steypa undirstöður, grjótverja við undirstöður og steypa bæði eystri landstöpul og millistöpul en unnið að uppslætti vestari landstöpuls. Stefnt var á að klára framkvæmd við brúna þann 15. desember.
Svo stórt verk er afar mannaflafrekt enda unnið að mörgum verkþáttum á sama tíma. Í byrjun október voru milli 50 og 60 að vinna að framkvæmdinni. Um tuttugu tæki eru í notkun, þar má nefna 6 trukka, 2 búkollur, fjórar gröfur, 2 jarðýtur, veghefil, valtara, 2 hjólaskóflur, borvagn og hörpu.
Framkvæmdin hefur ekki gengið alveg hnökralaust. Í ágúst síðastliðnum olli mikil úrkoma á svæðinu flóðum, meðal annars ofan við brúarframkvæmdir yfir Hoffellsá. Vegna framkvæmdanna náði sameiginlegt útfall Hoffellsár og Laxár ekki að renna til sjávar sem leiddi til þess að vatn flæddi yfir og því flæddi yfir lönd bænda á Akurnesi og Seljavöllum og olli skemmdum. Umfang tjónsins er enn óljóst, en Vegagerðin mun bæta það sem upp kemur.
Þessi grein birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 5. tbl. 2024 nr. 733. Áskrift að Framkvæmdafréttum er frí og hægt að gerast áskrifandi með því að senda póst á askrift@vegagerdin.is