4. maí 2022
Breikk­un Suður­lands­vegar (1) frá Bæjar­hálsi að Hólmsá – frummats­skýrsla og mynd­band

Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ, áformar að tvöfalda Suðurlandsveg (Hringveg 1) frá vegamótum við Bæjarháls að Hólmsá ofan Reykjavíkur. Lagður verður 2 + 2 vegur og tengingum fækkað frá því sem nú er ásamt því að gerðir verða nýir reið-, hjóla- og göngustígar.

Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi allra ferðamáta og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg með því að aðskilja akstursstefnur. Lagt er upp með að framkvæmt verði í allt að fimm áföngum.

Fyrstu tveir áfangarnir lúta að breikkun vegarins og stígagerð en fyrirhugað er að bjóða út hönnun þeirra á næstunni. Í áföngum þrjú til fimm felst gerð mislægra vegamóta en hönnun og framkvæmd þeirra er ótímasett.

Vegagerðin hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum ofangreindrar framkvæmdar, sem unnin er í samvinnu við Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ.

Kynningartími frummatsskýrslu er til 16. maí 2022.

Sjá nánar um framkvæmdina og frummatsskýrsluna á vef Vegagerðarinnar, og streymismyndband kynningarfundar.
Sjá einnig nýtt myndband um fyrirhugaðar framkvæmdir:

Framkvæmdamynd

Framkvæmdamynd