Bráðabirgðabrúin yfir Ferjukotssíki í Borgarfirði varð fyrir miklum skemmdum í jakahlaupi í Hvítá í morgun og ljóst að tjónið er umfangsmikið. Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar er kominn á staðinn, ásamt verkfræðingi hjá Vegagerðinni, þar sem aðstæður verða metnar. Hvítárvallavegur (510) við Ferjukotssíki lokaður eins og stendur og verður áfram.
Brúarflokkur Vegagerðarinnar byggði bráðabirgðabrúna fyrir tveimur árum en hún er einbreið úr stáli með timburgólfi og hvílir á stauraoki úr timbri. Bráðabirgðabrýr eru hannaðar fyrir ákveðinn umferðarþunga en geta ekki staðið af sér snöggt og þungt hliðarálag, líkt og jakahlaupið, sem líklegt er að hafi orðið í nótt.
Brúin yfir Ferjubakkasíki hvílir á fjórum stauraokum úr timbri. Tvö þeirra eru tengd landi og tvö í höfum. Líklegt jakahlaup hefur að öllum líkindum skemmt annað millistauraokið, sem hafði þær afleiðingar að meira álag kom á næsta millistauraok, svo það gaf sig líka. Landstauraokin eru varin af grjóti og þau standa.
Bráðabirgðabrýrnar yfir Steinavötn og Múlakvísl voru byggðar með þessu sama lagi og brúin yfir Ferjukotssíki. Þær stóðu þann tíma sem þær voru í notkun án vandræða.
Forsagan er sú að styttri brúin á Ferjukotssíki í Borgarfirði skemmdist í vatnavöxtunum í Hvítá í mars 2023. Hún var talin hættuleg og því ákveðið að rífa hana og fylla í skarðið. Lengri brúin, á öðrum ál Ferjukotssíkis, var einnig illa farin og því ákveðið að rífa hana einnig og byggja bráðabirgðabrú þar sem ekki fékkst fjármagn fyrir nýrri, varanlegri brú.
Síkisbrýrnar eru á gamla þjóðveginum um Hvítá og Ferjukot sem haldist hefur nánast óbreyttur frá því um 1950 en umferð um veginn minnkaði mikið eftir tilkomu Borgarfjarðarbrúarinnar. Þó er mikilvægt að halda þessari leið opinni þar sem hún er tenging innan sveitar og að gömlu fallegu bogabrúnni yfir Hvítá.
Síkisbrýrnar hafa lengi verið erfiðar í viðhaldi þar sem vegurinn að brúnum og milli þeirra hefur sigið töluvert. Í raun er nauðsynlegt að byggja nýja brú á þessum stað en ekki er til fjárveiting fyrir því enn.
Staðan og næstu skref verða tekin í dag og á næstu dögum.