Talsvert er um bikblæðingar á vegum nú þegar hlýnað hefur í veðri. Vegfarendur eru beðnir um að aka með gát. Vegagerðin hefur látið sanda vegi þar sem mikið er um bikblæðingar til að reyna að draga úr þeim. Varað er við ástandinu með skiltum og víða hefur hraði verið lækkaður. Bikblæðingar geta átt sér stað þegar yfirboð á klæðingu á vegum hitnar mikið á sólríkum sumardögum og fer hitinn jafnvel upp í 50-60 gráður. Við þessar aðstæður geta steinar klæðingarinnar sem jafnan eru efst, sokkið ofan í bikið undan umferðarálagi. Bikið verður því eftir í yfirborði klæðingarinnar. Einnig getur steinefnið losnað við þessar aðstæður.
Mikilvægt er að bregðast við á réttum tíma þegar blæðingin er opin og dreifa sandi eða aðeins grófara efni ofan í hana. Því er gott að fá ábendingar um blæðingar sem fyrst þegar vegfarendur verða varir við þær. Vegagerðin reynir annars að vakta ástandið á vegakerfinu vel þegar aðstæður koma upp sem gætu leitt til blæðinga og lætur þá merkja og dreifa steinefni til að lágmarka skaðann.
Vissara er að keyra ekki í þeim hjólförum sem bikblæðing hefur myndast heldur nær vegöxlinni. Einnig er ráð að draga úr hraða, ekki síst til að minnka líkur á steinkasti ef búið er að dreifa sandi í blæðinguna.
Tegundir klæðinga eru í grunninn tvær en íblöndunarefni hafa verið þó nokkur í gegnum árin. Áður fyrr var notað mikið svokallað „white spirit“ en því var hætt vegna umhverfisástæðna. Í dag er algengara að nota lífolíu. Lífolía hefur gjarnan verið nefnd sem orsakavaldur bikblæðinga en áður fyrr voru blæðingar vel þekktar í „white spirit“ klæðingum.
Ástæður blæðinga eru þó nokkrar en líklegast er samhengi allra þeirra þátta sem þurfa að vera réttir við útlögn og notkun klæðinga, þ.e. bikmagn, íblöndunarefni, gerð steinefnis og svo aðstæður við útlögn. Til að blæðing verði að sumri þarf einnig hita, sól og mikið umferðarálag.
Bikblæðingar eru ekki nýjar af nálinni og ekki bundnar við Ísland. Hérlendis varð þeirra fyrst vart í kringum 1980 en eftir því sem umferðin hefur aukist og þyngst hefur hætta á bikblæðingum aukist, þegar áðurnefndar aðstæður hafa myndast.
Bikblæðingar eru svo til engar á malbikuðum vegum, en malbik er mun dýrara slitlag en klæðing, eða nærri fjórum sinnum dýrari. Æskilegt væri að stærri hluti vegakerfisins væri malbikaður með tilliti til umferðarþunga og sífellt aukinnar umferðar en fjárveitingar hingað til hafa ekki dugað til þess.