25. september 2023
Baldur áfram Baldur

Ferjan Röst mun fá nafnið Baldur líkt og forverar hennar hafa heitið í nærri heila öld eða allt frá árinu 1924. Breiðafjarðarferjan Baldur mun því áfram heita Baldur. Til bráðabirgða mun nafnið þó vera Röst þar til gengið hefur verið frá öllum atriðum er varða skráningu á nýju nafni. Til að kanna hvort breytinga væri þörf á hafnarmannvirkjum lagðist nýja ferjan að bæði í Stykkishólmi og á Brjánslæk í síðustu viku, og gekk það mjög vel. Einungis er þörf á smávægilegum lagfæringum. Skipið þykir gott sjóskip.

Um tugur ferja hefur borið nafnið Baldur þannig að óhætt er að segja að nafnið hafi fests sig í sessi. Eindregnar óskir hafa komið fram hjá heimamönnum varðandi nafngift á ferjunni. Hugmyndir um að Röstin héldi sínu norsk-íslenska nafni hafa ekki fengið góðar undirtektir.

Það er eðlilegt að heimafólk sem nýtir og umgengst ferjuna mest hafi mest um það að segja hvað Breiðafjarðarferjan heitir. Það er Vegagerðinni ljúft og skylt að verða við þeim óskum og því verður nafnið Baldur tekið upp um leið og það er unnt. Heimafólk, skipverjar á Baldri og ferðaþjónustan eru einhuga um það að Baldur sé rétta nafnið á ferjunni.

Nú þegar búið er að máta ferjuna við bryggjurnar í Stykkishólmi og á Brjánslæk fer hún í slipp í Hafnarfirði. Það tókst vonum framar að leggja að á báðum stöðum. Aðeins þarf að gera smávægilegar breytingar á aðstöðunni í Brjánslæk sem felst í því að lækka endann á ekjubrúnni um nokkra sentimetra.

Þeir skipstjórnarmenn sem sigldu á Röst frá Noregi til Íslands eru mjög ánægðir með hversu gott sjóskip ferjan er og hvað hún fer vel með farþega um borð.

Röst siglir til hafnar í Stykkishólmi í fyrsta sinn 22. september 2023.

Röst siglir til hafnar í Stykkishólmi í fyrsta sinn 22. september 2023.

Litlar sem engar breytingar þarf að gera á hafnarmannvirkjum í Stykkishólmi.

Litlar sem engar breytingar þarf að gera á hafnarmannvirkjum í Stykkishólmi.