7. mars 2022
Árekstrar­púði sannar gildi sitt

Starfsmenn Vegagerðarinnar þurfa oft að vinna við erfiðar aðstæður úti á vegum í mikilli og hraðri umferð. Til að verja öryggi þeirra eru notaðar varnarbifreiðar sem útbúnar eru svokölluðum öryggispúða. Einn slíkur sannaði gildi sitt á dögunum þegar fólksbíll ók á hann í Kömbunum þar sem starfsmenn þjónustustöðvar á Selfossi voru að störfum.

Við vorum að gera við víravegrið við beygjuna nærri fossinum í Kömbunum. Fyrr um daginn hafði bíll ekið á vegriðið, fimmtíu staurar rifnuðu upp eða brotnuðu og vírinn lá á miðri akrein og olli nokkurri hættu. Við urðum því að bregðast hratt við,“ segir Grétar Einarsson verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Selfossi en hann ásamt þremur öðrum starfsmönnum unnu að viðgerðinni mánudaginn 31. janúar.

„Við vinnum orðið aldrei úti í umferðinni nema vera með púðabíla með okkur, í þetta sinn voru þeir tveir. Sá stærri var staðsettur um tuttugu metrum fyrir ofan okkur á akreininni þar sem bílar eru á leið niður Kambana. Við merktum einnig með skilti sem varaði við vinnu 300 metrum fyrir ofan bílinn. Minni púðabílinn, jeppa með áföstum púða, höfðum við á hinni akreininni en þeim megin vorum við að vinna,“ lýsir Grétar.

Svokallaður púðabíll er varnarbifreið með höggdeyfandi árekstrarvörn/árekstrarpúða. Púðarnir eru misstórir og eru ýmist festir aftan á vörubíla eða minni bíla, eftir því hvort unnið er á umferðarmiklum vegum eða vegum með minni umferð. Ef ekið er á púðann gefur hann eftir eins og harmonikka og ver þannig starfsmenn sem eru að störfum fyrir framan bílinn.

Grétar segir veðrið hafa verið ágætt, snjóþekja hafi verið á veginum en skyggni gott á þessum stað þó dimmt hafi verið uppi á heiði.

„Síðan kemur fólksbíll niður Kambana. Hann hefur líklega verið að aka aðeins of hratt miðað við aðstæður en menn misreikna oft veginn og færið. Þessi vegkafli er varasamur og nokkuð oft að menn lendi á vírnum þar. Ökumaðurinn missir stjórnina og ekur á árekstrarpúðann og svo út af veginum. Okkur brá auðvitað við þetta og við höfðum áhyggjur af fólkinu í bílnum,“ segir Grétar en bíllinn var stórskemmdur. „Við hringdum í neyðarlínuna og sjúkrabíll mætti á staðinn en sem betur fer voru ökumaður og farþegi í bílnum ómeiddir,“ lýsir Grétar og bendir á að púðinn dragi úr höggi á bíla sem aki á þá og minnki því þann skaða sem getur annars orðið við árekstur.

Varnarbifreiðin hreyfðist aðeins um nokkra sentímetra við höggið og Grétar og félagar sluppu með skrekkinn. „Þetta fær mann vissulega til að hugsa hvað hefði gerst í svona aðstæðum ef púðabíllinn hefði ekki verið til staðar. Það eru ekki ýkja mörg ár síðan slíkir bílar komu til sögunnar og maður þakkar fyrir að það er þróun í öryggismálum því það getur verið ansi hættulegt að vinna innan um mikla og hraða umferð.“

Púðinn á öryggisbifreiðinni er ónýtur og skipt verður um hann. Á meðan fá Selfyssingarnir lánaðan annan bíl frá þjónustustöðinni í Garðabæ.

Þessi grein birtist í 2. tbl. Framkvæmdafrétta 2022 sem er á leið til lesenda.  Rafræna útgáfu má finna hér.    Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.

 

 

Árekstrarpúðinn er ónýtur og skipta þarf um hann.
Árekstrarpúðinn er ónýtur og skipta þarf um hann.

Árekstrarpúðinn er ónýtur og skipta þarf um hann. Árekstrarpúðinn er ónýtur og skipta þarf um hann.

Grétar Einarsson verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar áSelfossi.
Grétar Einarsson verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar áSelfossi.

Grétar Einarsson verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar áSelfossi. Grétar Einarsson verkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar áSelfossi.