8. nóvember 2024
Alþjóð­legur minn­ingar­dagur um fórnar­lömb umferðar­slysa

Árlegur alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa verður haldinn sunnudaginn 17. nóvember. Í ár verður kastljósi dagsins beint að hættunni sem getur skapast á að sofna eða dotta undir stýri vegna þreytu ökumanna. Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni.

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa haldinn 17. nóvember 2024

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa haldinn 17. nóvember 2024

Minningarathafnir verða haldnar hringinn í kringum landið af þessu tilefni og þar verður fórnarlamba umferðraslysa minnst með einnar mínútu þögn. Löng hefð er fyrir því að minningarathöfn er haldin við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi kl. 14. Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra munu flytja ávörp á minningarathöfninni í Fossvogi. Þá er gert ráð fyrir því að reynslusaga verði sögð sem tengist umferðarslysi af völdum svefns og þreytu.

Einkennislag dagsins er lag KK, When I Think of Angels, í flutningi hans og Ellenar sem samið var til minningar um systur þeirra sem lést í umferðarslysi í Bandaríkjunum árið 1992. Lagið verður flutt samtímis á öllum útvarpsstöðvum kl. 14 á minningardaginn.

Alþjóðlegur minningardagur

Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.

Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum.

Að baki minningardeginum standa Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan og Vegagerðin.