4. október 2022
Aldrei meiri umferð mælst í sept­ember á Hring­vegin­um

Umferðin í september á Hringveginum jókst um meira en átta prósent og hefur aldrei mælst meiri í september, sama á við um ágúst sl. Nú stefnir í að umferðin í ár geti orðið 2,2 prósentum meiri en í fyrra og verði á svipuðu róli og metárið 2019.

Umferð milli mánaða
Umferðin í nýliðnum september var sú mesta, frá því að mælingar hófust, en umferðin jókst um rúmlega 8% miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Þess má geta að umferðarmet var einnig sett í ágúst. Aukning mældist á öllum landssvæðum og mest jókst umferðin um Vesturland eða um 10,6%. Svipuð aukning varð um Norðurland.  Minnst jókst umferðin um teljara við höfuðborgarsvæðið eða um 6,6%.

Af einstaka mælistöðum jókst umferð mest um mælisnið á Mýrdalssandi eða um rúmlega 24% en minnsta aukningin varð mælisnið á Fagradal, á Austurlandi, eða um 3,7%.

 

Frá áramótum
Nú hefur umferðin aukist um 3,7%, frá áramótum um lykilmælisnið Vegagerðarinnar á Hringvegi. Mest hefur umferðin aukist um Austurland en minnst aukning í kringum höfuðborgarsvæðið.

Umferð eftir vikudögum
Umferðin er gjarnan mest á föstudögum en minnst á mánu- eða þriðjudögum.

Hlutfallslega hefur umferð aukist mest á fimmtudögum en minnst á mánudögum.

Horfur út árið 2022
Nú stefnir í að umferð á Hringvegi geti aukist um 2,2%  miðað við síðasta ár.  Gangi sú spá eftir mun umferðin verða sjónarmun meiri en metárið 2019, svo það gæti stefnt í nýtt umferðarmet nú í ár.

Umferðin hlutfallsleg breyting

Umferðin hlutfallsleg breyting