Umferðin í júlímánuði reyndist um sjö prósentum meiri en í sama mánuði fyrir ári. Þetta er mesta umferð sem mælst hefur í júlí og þá mesta umferð sem mælst hefur á Hringveginum í einum mánuði. Það stefnir í að umferðin í ár slái öll met og verði einnig um sjö prósentum meiri en árið 2022 gangi spá Vegagerðarinnar eftir.
Milli mánaða 2022 og 2023
Áfram heldur umferðin, um 16 lykilteljara á Hringvegi, að aukast eins og niðurstöður júlímánaðar benda til. En umferðin jókst um 7% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þessi aukning varð til þess að aldrei hefur mælst meiri umferð í júlí og jafnframt er þetta mesta umferð, sem mælst hefur í nokkrum mánuði, hingað til. En alls fóru að jafnaði tæplega 125 þúsund ökutæki yfir mælisniðin 16, á hverjum sólarhring.
Svo óvanalega vildi til að mesta aukningin mældist á og við höfuðborgarsvæðið, en á því svæði mælist alla jafna litlar sveiflur. Skýringin á þessu kann að vera sú að á síðasta ári var þar óvenju lítil umferð miðað við árstíma.
Umferðin um Norður- og Austurland dróst hins vegar saman, miðað við sama mánuð á síðasta ári, eða um 1,9% og 4,5%. Það mældist einnig samdráttur í umferð á þessu sömu svæðum á síðasta ári.
Það sem af er ári 2022 og 2023
Það sem af er ári hefur umferðin, á Hringvegi, aukist um 9% miðað við sama tíma á síðasta ári. Mest hefur umferðin aukist um Suðurland eða um 16% en minnst um Austurland eða um 3,7%.
Umferð eftir vikudögum
Það sem af er ári, hefur umferðin aukist í öllum vikudögum og þá mest á mánudögum, eða um 12,1%, en minnst á sunnudögum, eða um 5,1%.
Mest er ekið á föstudögum en minnst á laugardögum.
Horfur út árið 2023
Nú stefnir í að umferðin, á Hringveginum, getið aukist um rúmlega 7%, miðað við síðasta ár. Gangi sú spá eftir yrði sú aukning um tvisvar sinnum meiri en varð á síðasta ári. Jafnframt þessu yrði þá slegið nýtt umferðarmet á Hringveginum, miðað við árið í heild.