12. júlí 2022
Aldrei fleiri nýtt Loft­brú

Fimmtíu prósent fleiri flugferðir hafa verið pantaðar í gegnum afsláttarkerfi Loftbrúar í ár en allt árið í fyrra.

Loftbrú var hleypt af stokkunum 9. september 2020 með það að markmiði að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Loftbrú veitir afsláttarkjör til þeirra sem eiga lögheimili á landsbyggðinni fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eyjum án vegasambands. Rúmlega 60 þúsund íbúar eru með réttindi á Loftbrú en hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að sex flugleggi til og frá Reykjavík á ári.

Loftbrú hefur verið vel tekið frá því hún var sett í loftið og verið notuð til niðurgreiðslu á yfir 100 þúsund flugleggjum á þeim tæpum tveim árum sem hún hefur verið aðgengileg. Það sem af er árinu 2022 hafa 50 % fleiri flugferðir verið pantaðar í gegnum Loftbrú í samanburði við allt árið 2021. Konur eru meirihluti notenda Loftbrúar eða 56 %, og eru almennt með ríkjandi meirihluta í öllum aldursflokkum, en fjölmennasti hópur notenda er á aldrinum 20-24 ára eða um 9 %.

Vegagerðin hefur umsjón með Loftbrú fyrir hönd ríkisins og sinnir öllu eftirliti og umsýslu henni tengdri. Bakendakerfi Loftbrúar er hýst á island.is en heimasíðan loftbru.is er rekin af upplýsinga- og þjónustuveitunni Stafrænu Íslandi. Þar auðkennir fólk sig með rafrænum skilríkjum og þeir sem eiga rétt á Loftbrúfá yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað.

Vegagerðin varðveitir og ber ábyrgð á gögnum Loftbrúar sem gefa mikilvægar upplýsingar um nýtingu á Loftbrú eftir upphafs- og endastað, kyni, aldri og búsetu, sem og þróun verðs á flugfargjöldum. Notkun og birting þessara gagna er ávallt samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Gögnin eru því fyrst og fremst til að greina nýtingu Loftbrúar samkvæmt grunnforsendum afsláttarkjaranna; bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti.

Fjöldi nýttra flugleggja eftir árum.

Fjöldi nýttra flugleggja eftir árum.

Fjöldi nýttra flugleggja eftir kyni og aldri.

Fjöldi nýttra flugleggja eftir kyni og aldri.