Í Vegvarpinu, hlaðvarpi Vegagerðarinnar, er fjallað um ýmis mál sem snúa að starfsemi Vegagerðarinnar. Í fyrsta Vegvarpi ársins var fjallað um vaktstöð Vegagerðarinnar sem starfar allan sólarhringinn, alla daga ársins. Viðmælendur G. Péturs Matthíassonar voru þeir Árni Gísli Árnason forstöðumaður upplýsinga og vöktunar og Páll Hróar Björnsson vaktstjóri á vaktstöð Vegagerðarinnar í Garðabæ.
Hægt er að hlusta á Vegvarpsþáttinn hér
Hér fyrir neðan má lesa viðtalið sem einnig var birt í 1. tölublaði Framkvæmdafrétta 2023 sem nú er á leið til lesenda.
Byrjum bara að spyrja; hvað í ósköpunum er vaktstöð?
Árni Gísli: Vaktstöðin sinnir fjölþættum verkefnum. Við erum með starfstöð bæði hér í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Garðabæ og aðra starfsstöð á Ísafirði. Vaktstöðin í Garðabæ vinnur með suðvesturhornið á landinu en vaktstöðin á Ísafirði þjónustar landið utan suðvesturhornsins. Ástæðan fyrir þessari skiptingu er að umferð er lang mest á suðvesturhorninu og því gott að aðgreina landið á þennan hátt. Yfir nóttina sameinast stöðvarnar og vaktstöð í Garðabæ tekur allt landið.
Við vinnum allan sólarhringinn, alla daga ársins. Í heildina eru starfsmenn um tuttugu. Að lágmarki eru tveir starfsmenn á vakt þegar mjög lítið er um að vera og að hámarki eru fimm eða sex starfsmenn yfir allt landið þegar aðstæður krefjast þess. Yfirleitt gerist það yfir vetrartímann.
Stærstu verkefnin hjá vaktstöð eru vöktun jarðganga. Í umferðarmestu jarðgöngunum eru myndavélar og vaktstjórar bregðast við ef til dæmis bílar stoppa, eitthvað hrynur af bílum, eða ef nýta þarf jarðgöng fyrir forgangsakstur. Miklar kröfur eru gerðar til öryggis í jarðgöngum og vöktun þeirra er einn þáttur í því að tryggja að við séum fljót að bregðast við ef eitthvað gerist.
Hitt stóra verkefnið er vetrarþjónusta en við erum samræmingaraðili fyrir vetrarþjónustu. Við köllum út verktaka sem eru með samninga hjá okkur, erum í samskiptum við eftirlitsmenn á vegum úti og vinnum í mjög góðu samstarfi við þjónustustöðvar Vegagerðarinnar um allt land. Starfsfólkið á þjónustustöðvunum er okkar fólk á staðnum. Við erum í miklum samskiptum við það ásamt fullt af verktökum, sem bæði sjá um snjómokstur eða eru eftirlitsverktakar á ákveðnum svæðum.
Við erum í miklum samskiptum við viðbragðsaðila ef það er einhver hætta á vegum. Tökum saman ýmis konar gögn og bregðumst við ýmsum upplýsingum til að sjá til þess að við séum að miðla eins miklum og réttum upplýsingum í rauntíma og við getum.
En í raun eruð það þið sem stýrið vetrarþjónustunni er það ekki? Þið sendið verktakana af stað til þess að fara í snjómokstur af því þið eruð búin að sjá að þörf er á því?
Árni Gísli: Þetta er samstarfsverkefni okkar, þjónustustöðvanna og verktakanna, og það er alveg opin samskiptarás á milli þessara aðila. Oftast er það þannig að eftirlitsmenn okkar fara út, meta aðstæður og eru þá í samskiptum við vaktstöð um að kalla út þá verktaka sem við erum með samninga við. Þá gerir vaktstöðin það og tryggir að skilaboðin komist til skila. Við þurfum öll að vinna saman, því þó við á vaktstöð séum með góða yfirsýn þá er það ekki það sama og að vera á staðnum. Þá treystum við á eftirlitsmenn sem eru á staðnum og geta gefið okkur ennþá betri upplýsingar en við sjáum á mælum og myndavélum og öðru slíku.
Páll þá er beint að spyrja hvernig er venjulegur dagur þegar er snjór?
Páll Hróar: Dagarnir á vaktstöð eru fjölbreyttir. Venjulegur dagur snýst um að fara yfir veðurupplýsingar sem við höfum frá veðurfræðingi og gögn frá mælum og veðurstöðvum Vegagerðarinnar og fleiri aðilum. Við reynum að sjá fyrir hvernig veður og færð muni þróast. Síðan hefst samtal við verktaka og eftirlitsmenn og undirbúningur fyrir hvenær við þurfum að gera eitthvað til að halda vegunum í því ástandi sem þeir eiga að vera í samkvæmt okkar vinnustöðlum.
GPM – þið eruð þá að reyna að horfa inn í framtíðina frekar en núið?
Páll Hróar: Já, þetta snýst eiginlega alltaf um það hvað gerist næstu klukkutímana og við erum að reyna að ímynda okkur hver þróunin verður fram í tímann. Við erum yfirleitt hér í Garðabænum að horfa í forvirka hálkuvörn þar sem við reynum að vera á undan hálkunni.
Oft getum séð fyrir með veðurspá og öðrum mælingum að hálka geti orðið eftir klukkutíma eða tvo og sendum þá út tæki til að salta vegi sem á þeim tíma eru auðir og með því að salta sjáum við til að þeir verði það áfram. Þessi forvirka hálkuvörn er í raun mest krefjandi hlutinn af vinnunni.
Vegna þess að stærstu og umferðarmestu vegirnir eiga að vera hálkufríir?
Páll Hróar: Já, eða svo gott sem hálkufríir. Það er í það minnsta markmiðið.
Hvernig er það á nóttunni. Þá dettur umferðin niður, er þá rólegra að gera hjá ykkur?
Páll Hróar: Já, það róast svona heldur. Þá er minni áhersla á að allt sé eins og á þeim tímum sem umferðin er mest. Hins vegar hefst þá vinnan við að ákveða hvað eigi að gera fyrir morgunumferðina. Hér á höfuðborgarsvæðinu verða verktakarnir helst að vera búnir að sinna sínum leiðum klukkan hálf sjö, sjö. Eftir það komast þeir ekki um fyrir umferð. Því þarf að vera búið að undirbúa og klára allt áður en umferðin eykst.
En stundum er nú veðrið þannig að það ekki annað hægt en að loka vegi. Hvernig gerist það?
Árni Gísli: Við erum með viðbragðsáætlanir vegna lokana. Erum síðan með samninga við björgunarsveitir og fleiri sem við getum kallað til til að manna lokunarpósta og greiðum fyrir þá vinnu til að hámarka öryggi.
Það er oft mjög fín lína að ákveða lokun. Við viljum loka tímanlega til að koma í veg fyrir að bílar festist og takmarki þá möguleika okkar á að hreinsa snjó þegar veður gengur niður. En við viljum heldur ekki loka of snemma og ekki of seint heldur. Það þarf ekki mikið til að þessar áætlanir breytist töluvert mikið.
Vaktirnar þar sem ákveða þarf lokun eru oft mjög krefjandi. Þá er verið að fylgjast grannt með allan tímann til að sjá hvort eitthvað breytist, hugsanlega þarf ekki að loka en menn þurfa að vera á tánum. Við lokum ef þarf en á sama tíma viljum við tryggja samgöngur. Við erum sífellt að endurskoða okkar ferla og fara yfir hvernig okkur hefur tekist til og hvort eitthvað þurfi að fara betur. Lokanir eru verkfæri sem hefur verið í þróun undanfarin ár í samvinnu við Almannavarnir og lögreglu. Við erum að minnka líkurnar á því að fólk festist þannig að það þurfi að bjarga því og að fastir bílar hamli mokstri þegar veðuraðstæður lagast, en það er mjög erfitt að fjarlægja ökutæki sem sitja föst í stórum stíl.
Fólk er auðvitað ekki ánægt að komast ekki leiðar sinnar þegar við lokum vegi, en allir eru að gera sitt besta til að hlutirnir gangi sem hraðast fyrir sig og það er okkar markmið að samgöngur séu í lagi en að fólk sé líka öruggt.
En það er þannig að þegar neyðarakstur þarf að komast þá er því bjargað þó allt sitji fast?
Árni Gísli: Það er þannig í okkar áætlunum. Ef þarf að koma bíl í forgangsakstri um veginn þá er það reynt eins og unnt er. Þá fer tæki á undan sem getur rutt og komið sjúkrabíl eða öðrum tækjum í forgangsakstri áfram. Í sumum tilvikum þurfum við að leita liðsinnis björgunarsveita. Við reynum auðvitað gera allt sem við getum.
Í jarðgöngum höfum við gripið til þess ráðs að loka göngum til að forgangsakstursbílar með sjúklinga komist í gegn sem allra fyrst.
Páll, fólk verður vart við að til dæmis Hvalfjarðargöngum er lokað nokkuð oft?
Páll Hróar: Já, eins og Árni Gísli nefndi þá er yfirleitt alltaf lokað þegar sjúkrabíll í forgangsakstri þarf að fara gegnum göngin. Það gerist reglulega. Svo eru það yfirleitt bílar sem virðast sækja í að bila í göngum.
Það er þá ekki óvanalegt að það sé biðröð við gangamunna?
Páll Hróar: Já, en biðin er yfirleitt ekki löng. Í forgangsakstri er biðin kannski í kringum sjö til átta mínútur.
Árni Gísli: Ég er sjálfur búinn að vera í rúmt ár hjá Vegagerðinni og það kom mér mjög á óvart hvað við erum að loka jarðgöngum oft. Það er alveg ótrúlegt hve margir bílar bila í göngum, en kannski ekki svo skrítið því það er jú landslag í jarðgöngum, það eru brattar brekkur til dæmis í Hvalfjarðargöngum. Oft verða menn til dæmis bensínlausir, því þegar lítið er í tönkum og bíll fer upp bratta brekku þá færist bensínið til í tanknum og nær ekki að dælast til vélarinnar.
Það er mjög oft sem bílar verða eldsneytislausir, þeir ofhitna eða eitthvað hrynur af þeim. Þá eru göngin lokuð til að tryggja öryggi þeirra sem eru í göngunum, og þannig að tæki geti komist til að hjálpa. Með þessu er hægt að opna göngin hratt aftur. Ef það myndast erfiðar aðstæður, með umferðaröngþveiti eða öðru, þýðir það að lokunin varir lengur og hefur þá áhrif á mun fleiri í mun lengri tíma.
Það eru mjög margir sem fara um Hvalfjarðargöng á hverjum degi, eru það ekki um 7 til 8 þúsund bílar að meðaltali á hverjum degi allt árið, og þá mun fleiri á sumrin?
Páll Hróar: Raðirnar við göngin eru fljótar að verða mjög langar ef lokunin varir lengur en í tíu mínútur. Við höfum verið að reyna að stytta biðtímann með því að hleypa umferð til skiptis inn í göngin til að láta hlutina ganga sem greiðast fyrir sig.
En hvernig er að koma skilaboðum til fólks sem er að bíða?
Páll Hróar: Það er náttúrulega lang best að sækja upplýsingar á umferdin.is. Þar er skilaboðum komið til skila til vegfarenda.
Umferðin hefur verið að breytast, við erum með allt öðruvísi vegfarendur, ferðamönnum fjölgaði og fækkaði svo aftur í covid. nú eru þeir að snúa aftur. Finnum við fyrir þessu?
Árni Gísli: Það er óhætt að segja það. Við finnum fyrir því bæði í auknu umferðarmagni og svo í ferðamönnum sem eru óvanir að aka í þessum aðstæðum sem eru hér. Þeir eru jafnvel í fyrsta sinn að upplifa snjó eða jafn mikinn vind og hér getur orðið. Svo er það þannig að vegakerfið okkar er ekki hraðbrautakerfi eins og er í mörgum öðrum löndum og því mikil viðbrigði fyrir marga. Við erum líka að sjá mun fleiri á ferðinni utan sumartímans. Það eru krefjandi aðstæður að tryggja að þessir ferðamenn hafi upplýsingar um það sem þá varðar og að tryggja að þeir hafi hæfni til að aka í aðstæðum sem þeir mögulega hafa aldrei séð áður.
En hvað gerið þið á sumrin?
Árni Gísli: Á sumrin minnkum við aðeins starfsemina hjá okkur. Þá er tækifæri til að koma fólki í orlof. Þá eykst líka umferð í gegnum jarðgöng og fjölgar atvikum þar sem þarf að fylgjast með. Við erum líka með vöktun og erum að taka á móti upplýsingum um skemmdir á vegum. Eins eru fleiri hlutir sem geta gerst eins og skriður og aðrar aðstæður á vegum sem þarf að bregðast við.
Ég hef oft sagt að hópurinn okkar á vaktstöð sé hópurinn á bak við tjöldin. Ef þú ekur í gegnum jarðgöng hugsar þú kannski ekki til þess að þarna sé fólk að fylgjast bæði með mælum og myndavélum. Sömuleiðis þegar þú séð snjómoksturstæki, þá ertu lítið að spá í því að það eru margir sem koma að því að skipuleggja moksturinn, eru að fylgjast með upplýsingum sem koma frá snjómoksturstækjunum og frá tækjum í bílum eftirlitsmanna. Við tryggjum að vegfarendur komist örugglega leiðar sinnar ef það er hægt.