29. janúar 2024
Kynn­ingar­fundur um fyrir­hugaðar breyt­ingar á gatna­mótum

Opinn kynningarfundur um fyrirhugaðar breytingar á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar í tengslum við matsáætlun vegna umhverfisáhrifa var haldinn 29. mars sl. í húsakynnum Reykjavíkurborgar. Fundurinn var upplýsandi og vel sóttur.

Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg og Betri samgöngur, áformar breytingar á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Hluti af framkvæmdinni felst í að útfæra leið Borgarlínunnar milli Vogabyggðar og Stekkjarbakka. Tilgangurinn er að efla alla ferðamáta, minnka umferðartafir á háannatíma og bæta umferðaröryggi. Framkvæmdirnar heyra undir Samgöngusáttmálann.

Á fundinum voru mögulegar lausnir fyrir gatnamótin og tengingar Borgarlínunnar kynntar sem og áherslur í komandi umhverfismati lausnanna. Auk fulltrúa Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna voru á fundinum fulltrúar Borgarlínunnar og verkfræðistofunnar EFLU, sem er ráðgjafi tillagnanna.

Berglind Hallgrímsdóttir hjá EFLU kynnti mögulega kosti og frumdrög Gatnamóta Reykjanesbrautar – Bústaðavegar og tengingu Borgarlínunnar við Vogabyggð að Stekkjarbakka. Eftir kynningu Berglindar var fyrirspurnum fundargesta svarað og tóku þá fleiri sérfræðingar þátt í því að svara. Að lokum voru opnar umræður milli fundargesta og sérfræðinga og útfærslur skoðaðar betur á veggspjöldum.

Kynningartími matsáætlunar er til 27.04.2023.

Áætlunin er aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Allar umsagnir skulu sendar á netfangið skipulag@skipulag.is.