Umsókn um nýjan héraðsveg

Héraðsvegir eru þeir vegir sem liggja að býlum, starfrækslu atvinnufyrirtækja, kirkjustöðum, opinberum skólum  og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis sem ákveðnir eru á staðfestu skipulagi og taldir eru upp í vegaskrá. Héraðsvegur skal þó aldrei ná nær framangreindum stöðum en 50 m ef hann endar þar. Jafnframt er heimilt að taka í tölu héraðsvega, vegi að sumarbústaðahverfum sem tengja  að minnsta kosti 30 bústaði við þjóðveg.

Vakin skal athygli á því að ekki er hægt að sækja um héraðsveg á grundvelli ofangreinds skilyrðis um býli nema um sé að ræða íbúðarhúsnæði þar sem bæði er fyrir hendi föst búseta og skráð lögheimili.

Fallist Vegagerðin á beiðni um lagningu nýs héraðsvegar skal skráður eigandi fasteignar greiða helming kostnaðar við vegagerðina skv. vegalögum. Fjallað er um kostnaðarhlutdeild fasteignareiganda vegna lagningar héraðsvegar samkvæmt vegalögum og málsmeðferð í tengslum við upptöku nýrra héraðsvega í reglugerð um héraðsvegi nr. 774/2010.

Umsækjandi skal sýna fram á að skilyrði laganna séu uppfyllt með framlagningu gagna

  • vottorðs um lögheimilisskráningu frá Þjóðskrá auk staðfestingu sveitarfélags á því að skilyrði um fasta búsetu sé uppfyllt.
  • Sé sótt um á grundvelli skilyrðis laganna um starfrækslu atvinnufyrirtækis ber að sýna fram á að um sé að ræða sjálfstæða starfsemi sem rekin er reglubundið og í nokkru umfangi í hagnaðarskyni.
  • Gögn þessi þurfa að fylgja umsókn sem viðhengi (pdf.) eða skulu send Vegagerðinni í pósti.

Ef umsókn er hafnað er sú ákvörðun kæranleg til innviðaráðuneytis.

Vegagerðin er veghaldari þjóðvega. Hafi umsækjandi þegar látið byggja veg, eða hafið vegaframkvæmdir án leyfis og samráðs við Vegagerðina er Vegagerðinni heimilt að hafna umsókn um þátttöku kostnaðar þrátt fyrir að skilyrði héraðsvegar kunni að vera uppfyllt. Því er mikilvægt að sótt sé um nýjan veg og haft samráð við Vegagerðina frá upphafi.

Umsókn um nýjan héraðsveg skal beina til Vegagerðarinnar og skal hún uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Umsókn skal vera skrifleg.
  2. Tilgreina skal nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda.
  3. Lýsa þarf staðháttum, tilgreina staðsetningu.
  4. Gera skal ítarlega grein fyrir þörf á nýjum vegi.
  5. Rökstyðja skal hvort skilyrði þess að vegur teljist til héraðsvega skv. vegalögum séu uppfyllt.
  6. Umsókn skal fylgja staðfestur skipulagsuppdráttur af fyrirhugaðri legu vegar og eftir atvikum deiliskipulag mannvirkja sem ætlunin er að nýr vegur muni tengja.
  7. Hafi vegur áður verið þjóðvegur skal skýra frá ástæðum þess að vegur féll út af vegaskrá á sínum tíma.

Senda skal umsókn á næstu þjónustustöð Vegagerðarinnar