Tjón á ökutækjum sem verða á þjóðvegum vegna ástands vegar er hægt að tilkynna til Vegagerðarinnar. Tilkynnt er um tjón á Mínum síðum Vegagerðarinnar.
Þau sem ekki eru með rafræn skilríki geta fyllt út eyðublað Vegagerðarinnar með lýsingu á atvikinu sem er hér fyrir neðan. Jafnframt geta myndir og aðrar upplýsingar fylgt í viðhengi. Senda skal tilkynningu á netfangið tjon@vegagerdin.is. Þegar tjónstilkynning hefur verið móttekin fer fram mat á því hvort Vegagerðin beri ábyrgð á tjóninu. Búast má við að afgreiðsla mála geti tekið tvær til þrjár vikur.
Um bótaskyldu Vegagerðarinnar sem veghaldara gildir eftirfarandi ákvæði 56. gr. vegalaga nr. 80/2007:
Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.
Vegagerðin bregst við eins fljótt og unnt er ef tilkynnt er um vegskemmd á vegi með viðgerð eða viðvörunarmerkingum. Hafi Vegagerðin brugðist nægilega fljótt við tilkynningum sem berast er að jafnaði ekki um bótaskyldu að ræða. Meta þarf hverju sinni hvort svo er en ljóst að starfsmenn Vegagerðarinnar geta ekki haft stöðugt eftirlit með öllu þjóðvegakerfi landsins. Vegskemmdir geta myndast skyndilega og geta starfsmenn Vegagerðarinnar því ekki alfarið fyrirbyggt hættu á tjóni. Aðgæsla ökumanna er besta leiðin til að forða tjónum.
Ef bótaskylda er fyrir hendi þá bætir Vegagerðin tjón samkvæmt framlögðum reikningum ef um minniháttar tjón á dekki eða felgu ökutækis er að ræða (allt að 100 þúsund krónur). Í öðrum tilvikum þarf að liggja fyrir mat á tjóni framkvæmt af viðurkenndu verkstæði.