Við uppbyggingu og þróun samgöngukerfisins eru greiðar samgöngur og öryggi einstaklinga forgangsatriði svo ekki komi til alvarlegra slysa.

Vegagerðin mun vinna að því bæði ein og í samvinnu við aðra að þau markmið náist sem Alþingi ákveður hverju sinni og fram koma í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er samstarfsverkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra.

Umferðaröryggisáætlun stjórnvalda

Umferðaröryggisáætlun er hluti af samgönguáætlun.

Gildandi umferðaröryggisáætlun nær yfir tímabilið 2020-2034 og má finna á vef Stjórnarráðs Íslands.

Í umferðaröryggisáætlun er annars vegar að finna markmið um fækkun slysa og hins vegar markmið um bætta hegðun. Markmiðum um fækkun slysa er svo skipt í yfirmarkmið og undirmarkmið.

Yfirmarkmiðin eru tvö:

  • Að Ísland verði í hópi fimm bestu Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna í umferðinni á hverja 100.000 íbúa.
  • Að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2034.

Til þess að styðja við yfirmarkmiðin eru sett 11 undirmarkmið þar sem hvert markmið lýtur að því að fækka ákveðinni gerð slysa eða slysa meðal ákveðins hóps og styður það þannig við síðara yfirmarkmiðið.

Með því að fylgjast með þróun í fjölda slysa af þeirri tegund eða í þeim vegfarendahópi sem undirmarkmiðin snúa að er því hægt að meta á hvers konar aðgerðum er mest þörf til að fækka slysum. Undirmarkmiðin eru eftirfarandi:

  1. Engin börn, 14 ára og yngri, látist í umferðinni.
  2. Ekki verði banaslys sem rekja má til vanrækslu á notkun öryggisbelta.
  3. Alvarlegum slysum og banaslysum vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs fækki árlega um 5%.
  4. Ungum ökumönnum, 17–20 ára, sem eiga aðild að alvarlegum slysum og banaslysum fækki árlega um 5%.
  5. Alvarlega slösuðum og látnum á bifhjóli fækki árlega um 5%.
  6. Alvarlega slösuðum og látnum gangandi vegfarendum fækki árlega um 5%.
  7. Alvarlega slösuðum og látnum hjólandi vegfarendum fækki árlega um 5%.
  8. Alvarlega slösuðum og látnum erlendum ríkisborgurum búsettum á Íslandi fækki árlega um 5%.
  9. Alvarlega slösuðum og látnum erlendum ferðamönnum á hverja 100.000 erlenda ferðamenn fækki árlega um 5%.
  10. Alvarlegum slysum og banaslysum vegna útafaksturs fækki árlega um 5%.
  11. Alvarlegum slysum og banaslysum vegna framanákeyrsla fækki árlega um 5%

Markmið um bætta hegðun í umferð eru sett fram í fyrsta skipti í gildandi áætlun og er hugsunin sú að ef þau markmið nást muni slysum fækka.

Hegðunarmarkmiðum er skipt í fjóra flokka og undir hverjum þeirra eru tvö til þrjú markmið:

  1. Að meðalökuhraði að sumarlagi á þjóðvegum þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. sé ekki meiri en 90 km/klst.
  2. Að hlutfall þeirra sem aka hraðar en 120 km/klst. sé hvergi hærra en 2%.
  3. Að hlutfall þeirra sem aka á löglegum hraða verði minnst 70% árið 2034.
  4. Hraðakstur
    1. Að hlutfall ökumanna sem aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á miðjum degi í miðri viku lækki um 5% á ári til ársins 2034.
    2. Að hlutfall ökumanna sem aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna að kvöldi til um helgar lækki um 5% á ári til ársins 2034.
  5. Akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna
    1. Að hlutfall ökumanna og farþega í akstri innanbæjar sem nota öryggisbelti verði að minnsta kosti 96% árið 2034.
    2. Að hlutfall ökumanna og farþega í akstri utanbæjar sem nota öryggisbelti verði að minnsta kosti 98% árið 2034.
    3. Að hlutfall leikskólabarna sem nota réttan öryggisbúnað verði að minnsta kosti 99% árið 2034
    4. Að hlutfall barna sem nota öryggishjálma á hjólum eða bifhjólum sé minnst 98% árið 2034
    5. Að hlutfall fullorðinna sem nota öryggishjálma á reiðhjólum sé minnst 90% árið 2034
  6. Bílbeltanotkun og notkun öryggisbúnaðar
    1. Að hlutfall ökumanna sem segjast aldrei nota snjalltæki undir stýri til annars en að tala í það verði hærra en 75%.
    2. Að hlutfall ökumanna sem segjast aldrei tala í síma án handfrjáls búnaðar undir stýri verði hærra en 50%.
  7. Farsíma- og önnur snjalltækjanotkun

Áherslur í umferðaröryggi 2020-2034

Til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið í umferðaröryggisáætlun verður lögð áhersla á tiltekin verkefni sem skipta má í fjóra flokka.

  1. Vegfarendur
  2. Vegakerfið
  3. Ökutækið
  4. Stefnumótun, rannsóknir og löggjöf

Hér á eftir er gerð grein fyrir aðkomu Vegagerðarinnar að verkefnum sem tilheyra þremur af þessum flokkum og auk þess bætt við atriðum sem Vegagerðin leggur sérstaka áherslu á og styðja við markmið umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda þótt þeirra sé ekki sérstaklega getið í þeirri áætlun.

Vegfarendur

Vegagerðarmenn séu til fyrirmyndar í umferðinni
Eðli máls samkvæmt eru starfsmenn Vegagerðarinnar mikið á ferðinni. Mikil áhersla er lögð á að þeir séu til fyrirmyndar í umferðinni.

Leyfilegur hámarkshraði
Hraði ökutækja hefur mikil áhrif á hversu alvarlegar afleiðingar umferðarslysa verða. Vegagerðin sér um rekstur umferðargreina sem staðsettir eru víða um land og fylgist þannig með umferðarhraða. Vegagerðin sér einnig um rekstur flestra sjálfvirkra hraðamyndavéla þótt allt er viðkemur sektum sé á ábyrgð lögreglu.  Á tímabilinu verður sérstök áhersla lögð á sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit. Við meðalhraðaeftirlit eru teknar myndir með tveimur myndavélum af hverju ökutæki og er meðalhraðinn milli myndavélanna reiknaður út frá fjarlægð milli vélanna og tíma milli mynda. Áhrif meðalhraðaeftirlits á fjölda látinna og alvarlega slasaðra eru metin hlutfallslega meiri en áhrif sjálfvirks punkthraðaeftirlits og einnig er áhrifasvæði meðalhraðaeftirlits stærra en áhrifasvæði sjálfvirks punkthraðaeftirlits.

Upplýsingagjöf
Vegagerðin veitir vegfarendum sem bestar upplýsingar um ástand vega og akstursaðstæður og eykur þannig umferðaröryggi þeirra.

Umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga
Vegagerðin kom að gerð leiðbeininga um gerð umferðaröryggisáætlana fyrir sveitarfélög og fjármagnar ýmsar umferðaröryggisaðgerðir sem lagðar eru til í þeim áætlunum.

Vegakerfið

Megináhersla er lögð á að vegir, og umhverfi þeirra, verði gerðir öruggari þannig að mannleg mistök í umferðinni leiði síður til alvarlegra slysa. Áhersla er lögð á góða og örugga innviði fyrir alla samgöngumáta með aðskilnaði óvarinna vegfarenda og annarrar umferðar á vegum og stígum. Framkvæmdir Vegagerðarinnar lúta umferðaröryggisstjórnun en hún felst í því að fylgja ákveðinni aðferðafræði, sem hefur umferðaröryggi að leiðarljósi, við undirbúning og lagningu nýrra vega sem og við úttektir á vegum sem þegar hafa verið teknir í notkun. Jafnframt hefur verið ákveðið að nýir hjólreiðastígar, sem fjármagnaðir eru að hluta til af samgönguáætlun, sæti umferðaröryggisrýni en slík rýni er einn þáttur umferðaröryggisstjórnunar. Einnig verður hugað að umferðaröryggisúttekt hjólreiðastíga sem þegar hafa verið gerðir. Þá skal í allri hönnun og skipulagningu hugað að öryggi við biðstöðvar almenningssamgangna.

Eyðing svartbletta
Svartblettir eru staðir í vegakerfinu þar sem slys eru mörg og slysatíðni (þ.e. fjöldi slysa miðað við umferð) er há. Slysastaðir eru skoðaðir nánar og m.a. greint hvort þar hafi orðið slys af sama toga eða við sömu aðstæður og reynt að finna leiðir til úrbóta. Auk ýmissa lagfæringa á vegakerfinu sjálfu geta aðgerðir falist í aukinni þjónustu (bæði vetrar- og sumarþjónustu) eða bættum merkingum.

Lagfæringar á umhverfi vega og/eða uppsetning vegriða
Um 50% alvarlegra slysa og banaslysa á þjóðvegum í dreifbýli verða við útafakstur. Því miðar stór hluti umferðaröryggisaðgerða að því að koma í veg fyrir útafakstur eða draga úr afleiðingum slysa sem verða á þennan hátt. Slíkar aðgerðir geta t.d. falist í lagfæringum á bratta vegfláa, fyllingu skurða, því að fjarlægja grjót við veg og uppsetningu vegriða.

Aðgreining akstursstefna
Í þeim tilgangi að fækka slysum sem verða við árekstur ökutækja úr gagnstæðum akstursáttum er lögð mikil áhersla á að halda áfram að aðgreina akstursstefnur á umferðarmestu vegum í dreifbýli.

Breikkun einbreiðra brúa
Lögð er áhersla á að breikka einbreiðar brýr eftir því sem fjárveitingar leyfa.  Til að auka öryggi á og við þær einbreiðu brýr sem ekki er unnt að breikka strax hefur leyfilegur hámarkshraði verið lækkaður og jafnframt hafa merkingar verið bættar og blikkljós verið sett upp.  Slíkum aðgerðum verður haldið áfram eftir því sem við á.

Lagfæring á vegamótum
Þegar vegamót reynast vera svartblettur er byrjað á því að leita ódýrra leiða til þess að draga úr fjölda slysa, t.d. með gerð hjáreina eða bættum merkingum. Oft er þó nauðsynlegt að ráðast í dýrari aðgerðir, t.d. gerð hringtorgs, og rúmast slíkt ekki innan fjárveitinga til lagfæringa á slysastöðum. Er því nauðsynlegt að tryggja fjármagn til dýrari framkvæmda við vegamót. Á umferðarmiklum vegamótum á þjóðvegum í þéttbýli er nauðsynlegt að verja vinstri beygjur með beygjuljósum.

Hvíldarsvæði, útskot og biðstöðvar
Mikilvægt er að við þjóðvegi séu útskot fyrir atvinnubílstjóra sem þurfa sína lögbundnu hvíld. Greina þarf hvar mesta þörfin er fyrir slíka staði m.t.t. reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma. 

Vinna þarf að gerð útskota sem nýtast ferðamönnum við að njóta útsýnis og taka myndir. Þegar hafa þeir staðir á Hringveginum þar sem vinsælt er að stöðva í þessum tilgangi verið kortlagðir en tryggja þarf fjármagn til að útfæra þessa staði á þann hátt að öryggiskröfur séu uppfylltar.

Öryggi farþega með almenningssamgöngum sem og á biðstöðvum skal tryggt. Aðgengi allra að þjónustunni, þar með talið fatlaðra og hreyfihamlaðra, verði eins og best verður á kosið.

Stefnumótun, rannsóknir og löggjöf

Tölfræði um umferð og umferðarslys er grundvöllur forgangsröðunar umferðaröryggisaðgerða.

Vegagerðin fær gögn um umferðarslys frá Samgöngustofu en vinnur áfram með gögnin í þeim tilgangi að finna slysastaði/svartbletti og meta hvaða aðgerðir séu mögulegar til að lagfæra þá.

Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar styrkir árlega mörg umferðaröryggisverkefni sem unnin eru af aðilum innan og utan stofnunar.

Endurskoðuð stefna birt á vef febrúar 2022