Stefna um samfé­lags­miðla

Stefna um samskipti á samfélagsmiðlum og heimasíðu

Samskipti Vegagerðarinnar við almenning á samfélagsmiðlum og á heimsíðu Vegagerðarinnar miða að því að auka þjónustu Vegagerðarinnar, bæta upplýsingaflæði og ferla og gera þannig Vegagerðinni kleift að sinna hlutverki sínu betur sem þjónustustofnun.

Vegagerðina er að finna á vef stofnunarinnar www.vegagerdin.is og á ensku á www.road.is, á fjölmörgum samfélagsmiðlum svo sem Facebook, Twitter, Instagram og LinkedIn. Vegagerðin sinnir einnig upplýsingamiðlun og samskiptum með símaþjónustu,  með SMS sendingum og með tölvupósti.

Vegagerðin hefur samskipti á samfélagsmiðlum og veitir upplýsingar þar til almennings, hvorttveggja íslenskra og erlendra íbúa landsins, til fjölmiðla, til ferðamanna og erlendra gesta í skemmri tíma, til atvinnulífsins svo sem ferðaþjónustunnar, flutningsaðila o.s.frv., til stjórnvalda, til viðskiptamanna svo sem verktaka og ráðgjafa, til starfsfólks Vegagerðarinnar og til framtíðarstarfsfólks.

Vegagerðin nýtir mismunandi miðla á mismunandi hátt eftir eðli þeirra og hver hentar hverju sinni í síbreytilegum heimi.

Á Twitter er miðað við að upplýsingar um færð og aðstæður birtist á svipaðan hátt og á heimasíðu Vegagerðarinnar, þær upplýsingar birtist hvort tveggja á íslensku og ensku. Sömu upplýsingar birtast á ensku á enskum vef Vegagerðarinnar. Fyrirspurnum og spurningum er svarað jafnóðum á Twitter.

Facebook er vettvangur almennra upplýsinga um Vegagerðina og verkefni hennar, og vettvangur umræðu ef svo á stendur. Upplýsingar um framkvæmdir og önnur verkefni eru þar til umfjöllunar og einnig birtast þar upplýsingar um færð og aðstæður þegar sérstaklega stendur á. Spurningum um færð og aðstæður sem berast á Facebook er svarað þar jafnóðum og öðrum spurningum svo fljótt sem kostur er.

Á Instagram heldur Vegagerðin úti myndum úr starfsemi sinni sem áhuga gætu vakið hjá almenningi sem og starfsmönnum Vegagerðarinnar.

Vegagerðin er með faglega umfjöllun um vegagerð á LinkedIn og upplýsingar sem gætu nýst þeim sem hyggja á framtíðarstarf hjá Vegagerðinni eða sem vinna að vegagerð hjá verkfræðistofum og ráðgjöfum til að mynda.