Í því skyni að efla fagmennsku, framsýni og öryggi í starfsemi Vegagerðarinnar staðfestir forstjóri  Vegagerðarinnar siða- og samskiptareglur fyrir alla starfsmenn Vegagerðarinnar.

Tilgangur reglnanna er meðal annars að auka skilvirkni og traust á stofnuninni en ekki síður að hvetja og aðstoða starfsfólk við að sinna störfum sínum á vandaðan og árangursríkan hátt. Liður í því er að stuðla að jákvæðum og heilbrigðum samskiptum og vinnubrögðum innan Vegagerðarinnar. Með því gerum við Vegagerðina að eftirsóknarverðari vinnustað.

Reglur þessar gilda um samskipti starfsmanna innbyrðis jafnt sem samskipti við viðskiptavini, samstarfsstofnanir og ráðuneyti. Þær eru einnig stuðningur fyrir starfsmenn Vegagerðarinnar ef upp koma siðferðileg álitamál sem taka þarf afstöðu til.

Stjórnendur bera ábyrgð á því að allir starfsmenn séu upplýstir um siða- og samskiptareglurnar. Starfsmenn Vegagerðarinnar gæta að því, hver fyrir sitt leyti, að fara eftir siða- og samkiptareglunum.

Framkoma og samskipti

  • Við sýnum samstarfsfólki og viðskiptavinum kurteisi og tillitssemi
  • Við veitum uppbyggilega gagnrýni og tökum ábendingum annarra vel
  • Við ræðum saman og leysum ágreining á faglegan og uppbyggilegan hátt
  • Við sýnum hvert öðru traust og virðum trúnað
  • Við hlustum á og virðum sjónarmið annarra óháð kyni, aldri, menntun, starfi og bakgrunni
  • Við tökum ekki þátt í baktali
  • Við hrósum hvert öðru fyrir það sem vel er gert
  • Við gætum þess innan sem utan vinnutíma að aðhafast ekkert það sem dregið getur í efa hæfni okkar til að sinna störfum fyrir Vegagerðina eða skaðað ímynd hennar
  • Við gætum þess í samskiptum utan vinnu, þar á meðal við notkun samfélagsmiðla að virða trúnað við samstarfsfólk og gagnvart vinnustað
  • Við öxlum ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum

Fagmennska

  • Við störfum í þágu almennings af heilindum, vandvirkni og heiðarleika
  • Við sýnum metnað og leggjum okkur fram í starfi
  • Við erum lausnamiðuð, vinnum saman sem heild og miðlum af reynslu og þekkingu okkar á milli
  • Við vinnum gegn hverskonar sóun og ómarkvissri meðferð fjármuna
  • Við forðumst bæði persónulega og fjárhagslega hagsmunaárekstra í starfi okkar og vekjum athygli á því ef hætta er á þeim
  • Við þiggjum ekki gjafir, afslætti eða hverskyns hlunnindi sem eru til þess fallin að hafa áhrif á ákvarðanatöku eða dómgreind okkar við vinnslu mála
  • Við tökum ábyrgð, viðurkennum ef okkur verða á mistök og leitumst við að bæta úr þeim

Öryggi

  • Við vöndum vinnubrögð og alla meðferð upplýsinga og skjala og gætum nauðsynlegs trúnaðar
  • Við aðhöfumst ekkert það í starfi sem getur ógnað öryggi okkar eða annarra
  • Við vekjum athygli viðeigandi aðila á ólögmætum ákvörðunum, athöfnum eða brotum á siða- og samskiptareglum
  • Við umberum ekki einelti, áreitni eða ofbeldi

Framsýni

  • Við leitum stöðugt leiða til að gera enn betur
  • Við erum sveigjanleg, víðsýn og opin fyrir nýjungum
  • Við horfum á tækifærin sem felast í áskorunum og breytingum
  • Við leitumst við að bæta sífellt við kunnáttu okkar og færni
  • Við nýtum okkur nýjustu tækni í samskiptum og miðlun upplýsinga

Hver starfsmaður Vegagerðarinnar er ábyrgur fyrir því að athafnir hans og gjörðir séu í samræmi við reglur þessar.

Reglur þessar eru hluti af ráðningarsamningi starfsmanna. Með undirritun ráðningarsamnings skuldbinda starfsmenn sig til að hlíta reglunum eins og þær eru á hverjum tíma.

Tilkynningar um brot á siða- og samskiptareglum skal senda gegnum innri ábendingargrunn Vegagerðarinnar.  Þær berast mannauðsstjóra sem skal taka málið til meðferðar.

Innri ábendingargrunnur er aðgengilegur frá innri vef Vegagerðarinnar og í gegnum CCQ kerfið (gæðastjórnunarkerfi).

Tilkynna skal grun um misferli beint til innri endurskoðanda.

                     Samþykkt af yfirstjórn 11.12.2023