Á þessari síðu er Efnisgæðaritið auk leiðbeiningarita og glæra frá námskeiðum um Efnisgæðaritið.
Nú er komin út endurskoðuð útgáfa af Efnisgæðaritinu frá október 2024. Ritið er númer, LEI-3406 eins og fram kemur á lykilsíðu hvers kafla, en kaflaskipting er óbreytt. Helstu breytingar í 2023 útgáfu ritsins eru að kröfum um þrýstistyrk og sementsmagn steypu í kafla 7 hefur verið breytt að hluta. Einnig var þá ákveðið að það sem áður var viðauki 10 í Efnisgæðaritinu um berggreiningu, var gert að sérstöku leiðbeiningariti sem vitnað er til í köflum Efnisgæðaritsins eftir þörfum, LEI-3410. Aðrar breytingar sem gerðar hafa verið á síðustu árum á ýmsum stöðum í Efnisgæðaritinu verða ekki útlistaðar hér. Ekki er í ritinu fjallað sérstaklega um rofvarnargrjót enn sem komið er, en til stendur að gefa út nýjan kafla um rofvarnargrjót. Athugið að viðaukar 1 til 9 voru ekki endurskoðaðir 2023 og voru áfram útgáfur frá 1. janúar 2023 inni á vefsvæði Efnisgæðaritsins.
Nú, við endurskoðun Efnisgæðaritsins 2024 var ákveðið að setja fram nýjar útgáfur af öllum köflum ritsins, svo og viðauka 1.
Helstu breytingar sem gerðar eru nú við endurskoðun og endurútgáfu eru í kafla 5 um burðarlag. Þar þykir orðið nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um efsta hluta burðarlagsins sem gjarnan er farið að nota í nýbyggingum, en það er um 50 mm lag af kaldblönduðu, 100% malbikskurli. Settar eru nú fram kröfur um kornadreifingu þessa bikbundna burðarlags, þ.e.a.s. markalínur, svo og ýmsa aðra þætti sem krafist verður að verði skjalfestir í tilboðsgögnum.
Að auki hafa verið gerðar ýmsar breytingar og lagfærinar á öðrum köflum ritsins, flestar efnislega smáar, en aðrar mikilvægari. Þar má nefna að flokkunarstærðum steinefna í klæðingu hafa verið fjölgað til þess að koma inn með flokkunarsigti úr „setti 2“ sem valkosti, til dæmis 10 mm og 14 mm sigti. Þá má nefna að burðarþolspróf á prófunarstofu í stórum stálhólki hefur verið tekin út úr megintexta kafla 5, en er haldið inni til upplýsingar í viðauka 1 um prófunaraðferðir enn um sinn.
Viðaukar 2 til 9 hafa ekki verið endurskoðaðir nægilega vel og verða þeir vonandi tilbúnir til birtingar á vef Vegagerðarinnar haustið 2025.