Það eina sem er öruggt þegar veður- eða ölduspá er annars vegar er að spáin er óviss.
Ef taka skal veigamiklar ákvarðanir á grundvelli slíkrar spár er mikilvægt að hafa
hugmynd um hve óviss spáin er. Öflugustu veðurstofur heims hafa lengi glímt við
að meta hve áreiðanlegar spár eru og vænlegasta leiðin virðist vera að þróa svonefndar
klasaspár. Í mjög stuttu máli má skipta aðferðum við klasaspár í tvo flokka: Annað
hvort er spáin reiknuð frá sömu upphafsstöðu með mörgum mismunandi reiknilíkönum
eða sama reiknilíkan er notað til að reikna margar spár út frá lítið eitt mismunandi
upphafsskilyrðum. Með því að bera saman niðurstöðurnar er svo reynt að finna líklegustu
þróun og hugsanleg frávik.
Hér er reynt að nálgast þessa hugsun með ákaflega einfaldri aðferð sem stundum hefur
verið nefnd “klasaspá fátæklingsins”. Nýjasta spá er borin saman við þær spár sem
voru reiknaðar hálfum og einum sólarhring áður. Það er ótvírætt veikleikamerki ef
niðurstaða tölvuspár er mjög breytileg frá einni keyrslu til annarrar. Ef spárnar
þrjár eru mjög samhljóða - eins og gera má ráð fyrir að þær séu að jafnaði í upphafi
spátímabils - má líta á það sem vísbendingu um að spáin sé tiltölulega örugg. Ef
verulegur munur verður á spánum - eins og búast má við að gerist í lok spátímabilsins
- bendir það til þess að spáin sé óviss.