Notkun upplýsinga um veður og sjólag
Vegagerðin og áður Siglingastofnun Íslands rekur upplýsingakerfið Veður og sjólag á vefsíðu sinni http://www.vegagerdin.is/vs/Today.aspx og í símsvara stofnunarinnar 902 1000.
Rekstur kerfisins er kostaður af vitagjaldi sem öll skip og bátar greiða. Alls rekur stofnunin sjálf 9 öldumælingadufl og níu veðurstöðvar en einnig birtir kerfið upplýsingar frá 20 veðurstöðvum í eigu sveitarfélaga og Veðurstofu Íslands.
Kerfið er stöðugt í þróun og uppbyggingu og sem dæmi má nefna að í sumarið 2004 var sett upp veðurstöð á Ingólfshöfða og í Flatey á Skjálfanda sumarið 2005, ásamt því að símsvarabúnaður 902 1000 var endurnýjaður auk þess sem upplýsingar frá ölduduflum eru nú birtar á textavarpi RÚV á síðu 191.
Notkun símsvara er mikil eða allt að 6500 upphringingum á mánuði yfir veturinn. Innkomur á vefsíðu um veður og sjólag eru að meðaltali um tæp 8000 á mánuði.
Á vefsíðu Siglingastofnunar eru einnig birtar síður með veðurspá og ölduhæðarspá einu sinni á dag allt að 4 daga fram í tímann. Þessar spár byggja á gögnum frá Veðurmiðstöð Evrópuríkja í Englandi (ECMWF) í samstarfi við Veðurstofu Íslands. Ölduhæðaspárnar hafa verið bornar saman við mælingar á duflum Siglingastofnunar og það hefur sýnt sig að spá næsta sólarhrings er að öllu jöfnu mjög áreiðanleg en áreiðanleikinn minnkar eftir því sem spáð er lengra fram í tímann.
Ekki er tiltæk vitneskja um hverjir nota vefsíðu og símsvara mest en ætla má að bátasjómenn og þá helst smábátasjómenn séu drjúgir við að nýta sér þessar upplýsingar. Markmiðið er að gögnin verði aðgengileg og notendavæn fyrir sjófarendur, vísindamenn og aðra þá sem þurfa á slíkum gögnum að halda.
Það skal tekið fram að Siglingastofnun Íslands ábyrgist á engan hátt að þau gögn sem hér má finna séu ætíð aðgengileg og uppfærð. Siglingastofnun Íslands er ekki undir nokkrum kringumstæðum ábyrg fyrir skaða sem hljótast kann af völdum skorts á upplýsingum eða rangra upplýsinga á heimasíðu og símsvara hennar.
Um notkun upplýsinga frá ölduduflum, ölduspá og veðurspá
Upplýsingar frá ölduduflum og veðurstöðvum birtast á klukkutíma fresti á vef stofnunarinnar og um leið koma sömu upplýsingar inn á símsvarann og inn á textavarpið. Á vefsíðu stofnunarinnar undir veður og sjólag er hægt að smella á reitina sem fylgja ölduduflunum og koma þá fram upplýsingar um ölduhæð á klukkutíma fresti síðustu 24 tímana. Þetta getur verið mjög gagnlegt til að fylgjast með sjólagi við miklar veðurbreytingar, sérstaklega ef höfð er hliðsjón af veðurspá Veðurstofunnar. Einnig er hægt að smella á reiti á ölduspákortið yfir Íslandsmiðin og koma þá fram upplýsingar um ölduspár 4 daga fram í tímann fyrir viðkomandi stað.
Fyrir þá sem róa á mið sem eru í nokkurri fjarlægð frá ölduduflum má benda á að með smá yfirlegu yfir ölduspá á netinu og með hliðsjón af veðurspá og mælingum frá ölduduflum má öðlast staðgóða þekkingu á tengslum ölduhæðar á viðkomandi dufli og öldufars á eigin miðum. Þetta má sjá af myndum sem hér fylgja.
Ölduspá
Fyrri myndin sýnir ölduspá frá 12. október fyrir næsta dag. Spáð er 3 -7 m öldu úr norðaustri vestur af landinu. Hæstu öldu er spáð út af Vestfjörðum og Breiðafirði eins og sést ef litur kortsins er borin saman við litaskala neðst á myndinni. Næst landi við Vestfirði er spáð 5-6 m öldu en 3-5 m öldu á grunnmiðum út af Snæfellsnesi og Breiðafirði. Nánari samanburð má gera með því að smella á reitina fyrir Straumnesdufl og Blakknesdufl og bera mældar ölduhæðir saman við ölduhæðaspá með því að smella á reiti næst duflunum á ölduspákortinu fyrir Íslandsmið.
Ölduhæð
Á neðri myndinni má sjá að þann 13. október mælist ölduhæð 5.9 metrar bæði á Straumnesdufli og Blakksnesdufli. Með þessar upplýsingar um ölduhæðir og með hliðsjón af ölduspánni frá deginum áður má ráða að alda á grunnmiðum út af Snæfellsnesi og Breiðafirði væri á bilinu 3–5 m þennan dag.
Stefna og sveiflutími
Til skýringar á efri myndinni er vert að geta þess að örvarnar á kortinu tákna öldustefnu og tölurnar ( 10 út af Vestfjörðum) tákna svokallaðan sveiflutíma öldunnar í sekúndum sem er m.a. mælikvarði á meðalfjarlægð milli öldutoppa. Því hærri sem talan er því lengra er milli öldutoppa. Það er þó ekki langa aldan sem er varasömust smábátum. Stutt en kröpp alda t.d. þegar veður er að versna og alda að byggjast upp getur verið mun hættulegri smábátum en löng alda með svipaðri ölduhæð.