Reglugerð um umferðarmerki: Merki þetta ber að nota þar sem bannað er að leggja ökutæki. Bannið tekur aðeins til þess vegarhelmings sem merkið er á. Bannið gildir í akstursstefnu frá þeim stað þar sem merkið er og að næstu vegamótum. Ef bannið á ekki að ná að næstu vegamótum má setja upp merki á þeim stað þar sem banninu á að ljúka og þar undir ör sem snýr á móti akstursstefnunni (J01.51 eða J01.52). Ef bannið nær aðeins um skamman veg má nota eitt merki með undirmerki sem tilgreinir fjarlægðina J02.11 . Ef þurfa þykir má árétta bannið með merki eða merkjum innan bannsvæðisins og þar undir örvum sem vísa í báðar áttir (J01.61). Nái bannið aðeins til tiltekinna tegunda ökutækja skal velja undirmerki með upplýsingum um það. Þegar bannað er að leggja ökutækjum á tilteknum dögum eða tilteknum tíma dags eða lengur en t.d. 30 mín. skal letra um það upplýsingar á undirmerki (J06.11 eða J07.11 ).
Merki þetta skal ekki nota þar sem stöðumælar eru en þeir gefa til kynna að heimild til að leggja ökutæki sé takmörkuð við tiltekið tímabil gegn greiðslu. Vinnureglur um notkun utan þéttbýlis: Ekki þarf að nota merkið þar sem bannað er að leggja samkvæmt umferðarlögum, sjá 27-29 gr. umferðarlaga Þegar bannað er að leggja ökutækjum á tilteknum dögum eða tilteknum tíma dags eða t.d. lengur en 30 mín má nota merkið B22.11 . Vinnureglur um notkun innan þéttbýlis: Leyfilegt er að snúa undirmerkjum (J01.51/52/61) bæði lárétt og lóðrétt til þess að tilgreina nánar bannsvæðið.